Fréttir
  • Register

Karl Ingi er nýr rekstrarstjóri Klausturbleikju

 

Hjá Klausturbleikju hefur Karl Ingi Torfason verið ráðinn rekstrarstjóri og við bjóðum hann hjartanlega velkominn til starfa. Karl Ingi býr yfir víðtækri reynslu í faginu, enda starfaði hann áður hjá Eðalfiski í 20 ár með hléum, fyrst í laxaflökun en síðar sem reykmeistari, gæðastjóri og að lokum framleiðslustjóri.

Við fengum Karl Inga til að svara nokkrum spurningum og ræða örlítið um fagið sem hann þekkir svo vel.

Hvað hefurðu verið lengi í eldisbransanum?
„Það eru nærri 20 ár síðan ég byrjaði fyrst í laxaflökun, nánar tiltekið árið 1995. Þótt ég hafi stundum tekið mér hlé frá faginu – m.a. til að vera vakstjóri hjá N1 og enskukennari í Brasilíu í tvö ár – er starfsreynslan í raun hátt í fimmtán ár. Ég vann mig smám saman upp úr laxaflökun í að vera framleiðslustjóri hjá Eðalfiski. Ég er því með allt sem tengist fiskeldi í blóðinu, líka það sem tengist sjálfri vinnslunni, s.s. að flaka og breinhreinsa, salta og reykja."

 

Karl Ingi er uppalinn í Borgarnesi og var í sveit öll sumur frá 5-14 ára. Hann kann því vel þá list að ganga í öll búverk, stór og smá, enda er rekstur á fiskeldi ekki ósvipaður landbúnaðarrekstri.

En hvað er sérstakast við starfið í fiskeldinu?
„Líklega er það tilfinningin sem fylgir því að vaða í gegnum þvögu af ferskum og spriklandi fiski. Hún er afar sérstök og eiginlega ólýsanleg," segir Karl Ingi. „Þegar menn henda fram veiðisögum og segjast hafa „vaðið í fiski" í laxveiðinni setur maður oft fram spurningamerki við slíkar fullyrðingar. Ástæðan er sú að mjög reglulega „vöðum við í fiski" – raunverulega."

Handvalinn fiskur
„Sumir halda að framleiðslan sé vélræn og tölvustýrð, en sú er alls ekki raunin. Til að finna Klausturbleikju í hinni fullkomnu stærð lækkum við einfaldlega vatnsborðið í kerinu, vöðum með háfinn út í og háfum upp bleikjuna til að gaumgæfa stærðina. Það er eina rétta leiðin til að finna bleikju sem mætir okkar eigin stærðar- og gæðastöðlum," segir Karl Ingi.

En hvernig matreiðir þú bleikjuna sjálfur?
„Það er svo einfalt að það tekur því varla að segja frá því. Ég tek flak og krydda það örlítið, t.d. með Herbes de Provence kryddblöndu, vef því inn í álpappír og set inn í ofn eða á heitt grill."

„Klausturbleikjan er nefnilega þannig hráefni að því minna sem maður gerir við hana, því betra. Margir nota Klausturbleikju líka í sushi-gerð og ég get staðfest gæðin, því jafnvel þótt ég sé ekki mikill sushi-maður á ég góða félaga sem nota hana óspart. Einn helsti kosturinn við Klausturbleikjuna er hversu þétt hún er í sér og því fer lítið til spillis í sushi-gerðinni."

Hvað var laxaflakari að gera í Brasilíu? Og hvernig var fiskurinn þar í landi?
„Ég þurfti að breyta til og sló til þegar mér bauðst vinna við að kenna ensku. Þetta var ógleymanleg reynsla, en laxinn þarna var ekki upp á marga fiska, ef svo má segja. Það er ekki mikið um laxeldi í Brasilíu og meginástæðan hefur með hitastigið í stöðuvötnunum að gera. Ef vatnið er of heitt brennir fiskurinn nánast engu og safnar bara fitu. Reyndar líta sumir á þetta sem arðbæran kost því þú færð stærri fisk á skemmri tíma, en almennt þykir fiskurinn of feitur og stundum verður hann nánast löðrandi af fitu."

„Norski eldislaxinn er t.d. töluvert feitari en sá íslenski, einmitt af þeim sökum að hitastigið hér er stöðugra og kaldara sem leiðir til þess að fiskurinn brennir meiru og verður þéttari og stinnari fyrir vikið. Einn mest spennandi þátturinn í starfsemi Klausturbleikju er einmitt vatnið sem við notum; það kemur rennandi undan hrauninu og við leiðum það beinustu leið í kerin. Þessi ferskleiki vatnsins hefur svo bein áhrif á gæði Klausturbleikjunnar – sem eru framúrskarandi."

Svo er ætlunin að mennta sig í þessum fræðum sem þú kannt nú þegar?
„Já, ég ákvað að 20 ára reynsla hlyti að þýða að ég hefði einhvern áhuga á faginu og skráði mig því í fjarnám í auðlindafræði hjá Háskólanum á Akureyri. Það er mjög spennandi fag og ekkert verra að byrja í nýju starfi á sama tíma – það er tvöföld ný byrjun hjá mér þetta haustið."

Klausturbleikja

Allar götur frá árinu 1995 hefur eldisstöðin Klausturbleikja ehf á Kirkjubæjarklaustri sérhæft sig í eldi á bleikju.

Fáðu sent fréttabréfið okkar

Fáðu nýjustu fréttirnar frá fyrirtækinu með því að skrá netfangið þitt hér fyrir neðan.