Reykt Klausturbleikja er gulls ígildi
Við segjum stolt frá því að Reykt Klausturbleikja hlaut gullverðlaun árið 2014 í árlegri fagkeppni Meistarafélags kjötiðnaðarmanna. Þetta er í tíunda sinn sem MFK heldur keppnina en þar leggja allir helstu aðilar í kjöt- og fiskvinnslu sínar bestu afurðir fyrir dómefnd. Að sjálfsögðu er um mjög vandað dómnefndarferli að ræða; allar innsendar afurðir eru ómerktar og prófanir eru blindar.
Fullt hús stiga
Í störfum dómnefndar getur hver vara mest hlotið 50 stig, en 10 stig eru í boði í flokkunum fimm (ytra útlit, innra útlit, lykt og bragð, samsetning og verkun). Til að hljóta gullverðlaun má afurð ekki fá meira en eitt stig í mínus og það er því ekki út í loftið sem við erum að springa af stolti.
Ferska vatnið breytir öllu
„Við leggjum alla okkar alúð í að meðhöndla bleikjuna náttúrulega,“ segir Karl Ingi Torfason, rekstrarstjóri Klausturbleikju, þegar hann er spurður um verðlaunin. „Þetta er fallegur fiskur og við búum við þær einstöku aðstæður að geta alið hann í vatni sem rennur beint undan hrauninu. Hreinna og ferskara verður það einfaldlega ekki. Í kjölfarið heiðrum við þessa frábæru náttúruafurð með því að meðhöndla hana af virðingu, alla leið í pakkningarnar og inn á heimili neytenda sem kunna að meta gæði.“