Klausturbleikja – best í fersku og köldu vatni
Allar götur frá árinu 1995 hefur eldisstöðin Klausturbleikja ehf á Kirkjubæjarklaustri sérhæft sig í eldi á bleikju undir vörumerkinu Klausturbleikja og þróað einstaka eldisaðferð sem byggir á nátturulegu umhverfi og fersku lindarvatni.
Bleikjan er fjarskyldur ættingi laxins; hún er ferskvatnsfiskur og norðurheimskautsfiskur með heimkynni á Íslandi, Grænlandi, Noregi, Alaska og Kanada. Bleikjan hefur verið á borðum Íslendinga síðan land byggðist og á diskum þjóðhöfðingja sem heimsótt hafa landið.
Bleikjan þrífst best í köldu og súrefnisríku lindarvatni eða í ferskvatnsblönduðum sjó. Við slík skilyrði vex hún að jafnaði hægar en frændfiskarnir og þetta kemur skýrt fram í auknum þéttleika og matgæðum fisksins til manneldis.
Náttúrulegar eldisaðstæður og hágæða fóður
Eldisaðstæður Klausturbleikjunnar líkjast náttúrulegum árstraumi og því getur bleikjan hreyft sig og vaxið eðlilega. Klausturbleikja er alin á fóðri sem stuðlar að jöfnum vexti, jafnvel við mjög lágt hitastig, en fóðrið samanstendur af hágæða loðnumjöli, loðnulýsi, sojapróteini, hveiti, vítamínum og steinefnum.
Hentug sláturstærð
Sláturstærð Klausturbleikju er í kringum 600-1000 grömm en hvert flak vegur á bilinu 150-300 grömm. Hámarksgeymsluþol næst með því að pakka fiskinum ferskum í lofttæmdar umbúðir til að viðhalda fullum ferskleika við 0-4°C í allt að sjö daga. Reykt bleikja í lofttæmdum umbúðum helst fersk í a.m.k. fjórar vikur.
Frábært næringargildi og holl fita
Fitumagn Klausturbleikjunnar er 8-12% og inniheldur fitan hollar fjölómettaðar fitusýrur sem eru mannfólkinu nauðsynlegar og mynda vörn gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Fitan er auðug af Omega 3 (17,7%) og D-vítamíni og hver 100 grömm af Klausturbleikju innihalda að jafnaði einungis um 201 kaloríur.
Klausturbleikja er einstakt, íslenskt hráefni og hún er fáanleg fersk, reykt eða grafin.