Náttúran
  • Register

Náttúran og jökullinn

Klausturbleikja er alin í einkar tæru lindarvatni undan Vatnajökli en einstök vatnsgæði íslenskrar náttúru eru stór þáttur í gæðum fisksins.

Vatnajökull er stærsti vatnsforði Íslands og að hluta til er jökullinn yfir 1000 ára gamall ísmassi. Í nágrenni Kirkjubæjarklausturs renna til sjávar tvær af stærstu jökulám landsins, Skaftá og Hverfisfljót.

Árið 1783 gaus í Lakagígum á Síðumannaafrétti. Skaftáreldahraun breytti mjög landslaginu í Skaftafellssýslu, eyddi byggð og breytti rennsli vatna. Skaftáreldahraun hefti vesturrennsli Hverfisfljóts, farvegirnir þornuðu upp að mestu og fljótið fór að renna austan við hrauntunguna þar sem það rennur enn í dag.

Fiskeldisstöðin er reist í einum af gömlu farvegum Hverfisfljóts. Undan hrauninu spretta upp margar tærar lindar þar sem hluti Hverfisfljóts síast í gegn. Þannig hefur hraunið síað vatnið og lindirnar mynda ár og læki og hluti af þessu bergvatni er notað til bleikjuueldisins.

Óvíða á landinu er að finna sambærilegt magn af lindarvatni sem nýta má til bleikjueldis. Þessar einstöku aðstæður með jöfnu rennsli og jöfnum hita (3-8°C) skapa grundvöll fyrir hágæða matfisk allt árið um kring.

 

Kirkjubæjarklaustur

Kirkjubæjarklaustur er rómað fyrir náttúrufegurð, milt veðurfar og óþrjótandi möguleika fyrir náttúruunnendur. Þaðan er stutt í helstu náttúruperlur Íslands, s.s. Lakagíga, Eldgjá, Skaftafell, Vatnajökul og fleiri staði.

Kirkjubæjarklaustur hét áður Kirkjubær og var þar löngum stórbýlt og má segja að svo sé enn. Kauptún hefur myndast og er það í daglegu tali kallað „Klaustur”.

Á Kirkjubæ var stofnað nunnuklaustur af Benediktsreglu árið 1186 og hélst klausturhald óslitið fram að siðaskiptum árið 1550. Árið 1783 var Jón Steingrímsson eldklerkur sóknarprestur og stappaði hann stálinu í sveitunga sína þegar Skaftáreldar gengu yfir. Jón bjó á Prestsbakka á Síðu en kirkja sóknarinnar var á Kirkjubæjarklaustri. Minningarkapella um Jón eldklerk Steingrímsson var vígð árið 1983. Kirkjubæjarklaustur er þéttbýlis- og þjónustukjarni Skaftárhrepps og miðstöð samgangna í fjórðungnum og þar er fjölbreytt þjónusta við ferðafólk, gistiaðstaða og veitingastaðir.

Allar nánari upplýsingar um Kirkjubæjarklaustur má finna hér.

Klausturbleikja

Allar götur frá árinu 1995 hefur eldisstöðin Klausturbleikja ehf á Kirkjubæjarklaustri sérhæft sig í eldi á bleikju.

Fáðu sent fréttabréfið okkar

Fáðu nýjustu fréttirnar frá fyrirtækinu með því að skrá netfangið þitt hér fyrir neðan.